Hertar sóttvarnarreglur hafa áhrif á starfsemi Fjölsmiðjunnar

Í ljósi nýrra sóttvarnarreglna sem taka gildi á miðnætti þá þurfum við að loka hefðbundinni starfsemi deilda frá og með morgundeginum 25. mars. Nemar mæta því ekki til vinnu á morgun fimmtudag. Stefnt er að því að nemar mæti aftur til vinnu miðvikudaginn 7. apríl. Nemar verða látnir vita ef það breytist.
Gleðilega páska….🙂

Ásgeir Jóhannesson frumkvöðull.


Eins og áður hefur komið fram þá var það Rauðikrossinn sem átti frumkvæðið að stofnun Fjölsmiðjunnar á sínum tíma.


Það var ánægjulegt að fá einn aðal hvatamanninn að stofnun Fjölsmiðjunnar í heimsókn á 20 ára afmælisdeginum 15. mars og fyrsta formann stjórnar Fjölsmiðjunnar þ.e. Ásgeir Jóhannesson.


Hann fræddi okkur m.a. um aðdraganda að stofnun Fjölsmiðjunnar. Nafnið var keypt af fyrirtæki úti í bæ sem var í raun hætt starfsemi, fyrir 10 þ.kr. Nafnið Fjölsmiðjan á að tákna það sem margt er í boði.


Upplýsingar um brottfall úr skóla voru víst ekki svo opinberar á þessum árum og það þurfti aðstoð Hagstofunnar til að finna það út að brottfall úr skólum fyrir rúmum 20 árum síðan var um 40%.

Þessar staðreyndir ýttu m.a. undir stofnun Fjölsmiðjunnar.

Rauðikrossinn leitaði eftir hugmyndum að úrræði fyrir aldurshópinn 16- 24 ára og það var ekki fyrr en árið 1997 að Ásgeir er í einkaerindum á ferðalagi í Köben og nýtti ferðina og kynnti sér m.a. kvennasmiðju með Rauðakrossinn í huga.
Þegar hann er að yfirgefa smiðjuna þá rekst hann á bækling um “Produktion“ skóla í Danmörku sem hann hreifst af sem varð svo fyrirmyndin að stofnun Fjölsmiðjunnar fjórum árum seinna.


Takk fyrir frumkvæðið og eldmóðinn Ásgeir Jóhannesson og annað hugsjónafólk sem stuðlaði að stofnun Fjölsmiðjunnar. Kristján Guðmundsson fyrrverandi félagsmálastjóri og bæjarstjóri Kópavogs var síðan ráðinn verkefnastjóri á undirbúningsstigi Fjölsmiðjunnar. Þorbjörn Jensson fyrrverandi forstöðumaður hennar leiddi svo starfsemina samfellt í 17 farsæl ár. Myndin er af Ásgeiri J. þegar hann heimsótti Fjölsmiðjuna og borðaði með okkur í gær í tilefni dagsins. Hann er 90 ára á þessu ári.

Um þessar mundir eru 20 ár frá stofnun Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölsmiðjan hóf starfsemi sína árið 2001 og formlegur stofndagur er 15. mars. Stofnaðilar voru Rauði kross Íslands, Félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Rauðikross Íslands hafði frumkvæði að undirbúningi Fjölsmiðjunnar með Ásgeir Jóhannesson formann Kópavogsdeildar Rauðakrossins í broddi fylkingar. Rauðikrossinn kynnti hugmyndirnar fyrir þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni sem tók að sér að hafa forræði að athugun og undirbúningi málsins. Rauðikrossinn sá sig knúinn til að bregðast við ákveðnu ástandi.

Verkefnastjóri á undirbúningsstigi Fjölsmiðjunnar var Kristján Guðmundsson fyrrverandi félagsmála- og bæjarstjóri. Gissur Pétursson núverandi ráðuneytisstjóri í Félagsmálaráðuneytinu hefur fylgt Fjölsmiðjunni eftir öll þessi ár m.a. með því að vera í stjórn frá upphafi.

Hugmyndin að Fjölsmiðjunni er fengin frá dönsku „Produktion“ skólunum,sem Þorbjörn Jensson fyrsti forstöðumaður Fjölsmiðjunnar kynnti sér vel við upphaf starfseminnar. Reynsla Dana var sú að 80% þeirra sem komu í vinnusetrin fóru í skóla eða út á vinnumarkaðinn sem líklega er góður árangur.

„Hugmyndin er að vera með trésmíðadeild, garðyrkjudeild, járnsmíðadeild, skrifstofu og tölvudeild. Þá er ætlunin að vera með umönnunardeild og hússtjórnardeild þar sem m.a. verður kennd matreiðsla, saumaskapur og ýmislegt fleira, svo verður þjóðfélagsfræðsla og fræðsla um peninga…”Þetta skrifar Þorbjörn Jensson fyrrverandi forstöðumaður til 17 ára við upphaf Fjölsmiðjunnar árið 2001. Í dag er Fjölsmiðjan rekin í megindráttum í sama anda.

Fjölsmiðjan leitast við að vera í góðum tengslum við vinnumarkaðinn og félagsleg úrræði og vera sýnilegur valkostur þegar velja þarf leiðir í lífinu. Fjölsmiðjan leggur áherslu á að þeir nemar sem hafa verið við störf í Fjölsmiðjunni fari þaðan sem sterkari einstaklingar, félagslega, námslega og hæfari á vinnumarkað.

Fjölsmiðjan er sjálfseignarstofnun með það markmið að starfsrækja verkþjálfunar, framleiðslu- og- fræðslusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Sömuleiðis eiga 25 ára og eldri aðgang að Fjölsmiðjunni ef þeir hafa sérstaka þörf á því sviði.

Úrræði Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu er einstakt á Íslandi og nauðsynlegt.

Fjölsmiðjan blandar saman vinnu og virkni í deildum hennar ásamt námi, sköpun, lífsleikni, ýmis konar fræðslu og mögulegri hreyfingu. Starfsemin byggir á sex deildum; veitingadeild, trésmíðadeild, bíladeild, handverks- og pökkunardeild, tækni- og tölvudeild ásamt fræðsludeild sem gengur þvert á allar deildir.

Stuðst er m.a. við “ Fimm leiðir að vellíðan “ skv. leiðbeiningum frá Landlækni Íslands.

Starfsemin stuðlar að heilbrigðum og farsælum venjum í daglegu lífi með frekara nám og þátttöku almennt í lífinu í huga. Meta framfarir og veita endurgjöf til nema.

Fjölsmiðjan varð viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili þ. 7. Sept. síðast liðinn sem auðveldar okkur að bjóða nemum námseiningar fyrir veru sína í Fjölsmiðjunni.

Um 24 nemar sækja nám, ( fjarnám og staðnám ) á vorönn árið 2021 í Fjölsmiðjunni og utan hennar samhliða störfum á deildum. Allir nemar fá stuðning og utanumhald við sitt nám. Aðrir vilja fyrst og fremst sækja þjálfun í vinnu og lífsleikni og safna kröftum fyrir frekara nám og vinnu.

Stjórn og starfsmenn Fjölsmiðjunnar hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á það að auka vægi fræðslunnar og það er nákvæmlega það sem við erum að gera í dag. Þannig að nemar Fjölsmiðjunnar geti fengið einingar fyrir að vera í Fjölsmiðjunni til þess að auðvelda þeim frekari nám og vinnu.

Þessi misserin eru tæplega 70 einstaklingar á aldrinum 16- 27 ára á skrá hjá Fjölsmiðjunni og margir á biðlista. Eftirspurnin hefur aukist undanfarin ár en regluleg endurnýjun á sér stað í nema hópnum yfir árið. Að auki hafa komið inn hópar frá Vinnumálastofnun með reglulegu millibili, margir hverjir af erlendum uppruna sem hafa meðal annars fengið íslenskukennslu í Fjölsmiðjunnni eða úti bæ samhliða vinnu hjá okkur.

Fjölsmiðjan er sjálfseignarstofnun og er rekin með um 75% fjármögnun frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Menntamálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun. Um 25% fjármögnunar þarf að vera sjálfsaflafé sem aflað er með sölu á varningi og þjónustu sem unnin er í ólíkum deildum Fjölsmiðjunnar.
Við tökum fjölbreytt verkefni að okkur og fögnum þeim.

Hér flæða heilu tonnin af tilfinningum og tækifæri til að gera enn betur.

Starfsmenn Fjölsmiðjunnar eru 11 ( sjá nánar á www.fjolsmidjan.is )

Í stjórn Fjölsmiðjunnar árið 2021 eru :
Ellen J. Calmon formaður
Páll B. Guðmundsson varaformaður
Guðrún Narfadóttir
Klara Baldursdóttir Briem
Margrét Linda Ásgrímsdóttir

Ánægjulegur stuðningur við Fjölsmiðjuna á höfuðborgarsvæðinu.


Með samstöðu stjórnar Fjölsmiðjunnar, starfsmanna, nemanna og bakhjarla Fjölsmiðjunnar, þ.e. VMST, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Menntamálaráðuneytinu, Félagsmálaráðuneytinu tókst að halda rekstri Fjölsmiðjunnar rétti meginn við núllið á árinu 2020.


Það var líka ánægjulegt að Fjölsmiðjan fékk þá viðurkenningu frá Menntamálastofnun að verða viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili þ. 7. sept. síðast liðinn sem auðveldar okkur að bjóða nemum námseiningar fyrir veru sína í Fjölsmiðjunni með áframhaldandi nám í huga.


Nemar Fjölsmiðjunnar hafa fullt fram að færa í íslensku samfélagi með lífsreynslu sinni og hæfileikum en þurfa hvatningu til að uppgötva styrkleika sína og efla virkni til vinnu og náms.


Fjölsmiðjan er sjálfseignarstofnun og er rekin með um 75% fjármögnun frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Menntamálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun. Um 25% fjármögnunar þarf að vera sjálfsaflafé sem aflað er með sölu á varningi og þjónustu sem unnin er í ólíkum deildum Fjölsmiðjunnar. Við tökum fjölbreytt verkefni að okkur og fögnum þeim.


Til allrar hamingju komu bakhjarlar Fjölsmiðjunnar til móts við Fjölsmiðjuna á síðasta ári með einskonar
“ Covid” framlagi.

Rekstrartekjur á árinu 2020 reyndust 164.7 m.kr. á móti rekstrargjöldum 159.8 m.kr., rekstrarafgangur var því uppá 4.9 m.kr.

Verkefnastaða og tekjumöguleikar Fjölsmiðjunnar sveiflast í takt við aðstæður í atvinnulífinu. Aðstæður í dag eru afar neikvæðar fyrir rekstur eins og Fjölsmiðjuna, sbr. veitingadeildin hefur verið lokuð meira og minna allt síðasta ár fyrir utanaðkomandi gestum.


En þörfin fyrir úrræði Fjölsmiðjunnar hefur sjaldan verið meiri.


Takk fyrir samstöðuna og stuðninginn á síðasta ári. Krefjandi verkefni blasa við okkur á nýju ári 2021.