Samstarfsamningur Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu við framhaldsskóla um einingabært nám.


Í dag föstudaginn 15. janúar var samstarfssamningur Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu, Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskólans við Ármúla, Fjölbrautarskólans í Breiðholti og Tækniskólans undirritaður í húsnæði Fjölsmiðjunnar, Víkurhvarfi 2 Kópavogi.
Undir samstarfssamninginn rituðu Ellen Calmon forman stjórnar Fjölsmiðjunnar, Hjördís Bára Gestsdóttir verkefnisstýra Fjölsmiðjunnar, Ársæll Guðmundsson skólameistari Borgarholtsskóla, Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautarskólans við Ármúla, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautarskólans í Breiðholti og Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans.

Þann 7. september sl. hlaut Fjölsmiðjan á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningu frá Menntamálastofnun sem framhaldsfræðsluaðili á 1. þrepi. Þessi viðurkenning hefur mikla þýðingu fyrir starfsemi og nema Fjölsmiðjunnar þar sem nemar fá aukin tækifæri til náms í Fjölsmiðjunni sem metið verður til framhaldsskólaeininga. Þá er þetta ekki síður viðurkenning á þeirri þróun á faglegu starfi Fjölsmiðjunnar sem hefur átt sér stað á síðastliðnum árum.
Samstarfssamningurinn hljóðar upp á að nemar Fjölsmiðjunnar geta nú sótt einingabært nám á 1. þrepi í samstarfsskólunum. Í fyrstu verður boðið upp á nám í tveimur áföngum í íslensku, tveimur áföngum í stærðfræði og tveimur áföngum í lífsleikni. Einingarnar sem nemarnir ljúka eru svo metnar að fullu til áframhaldandi náms ef vill.
Fjölsmiðjan er sjálfseignarstofnun og á 20 ára farsæla sögu á þessu ári. Hún sinnir mikilvægu hlutverki hvað varðar félags- og virkniúrræði fyrir ungmenni. Byggt er á góðu samstarfi við atvinnulífið, félagsþjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Vinnumálastofnun, framhaldsskóla, félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra aðila sem vinna að mál-efnum ungs fólks. Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk með náms- og starfsendurhæfingu að augnmiði. Áhersla er lögð á að styrkja félagslega færni, efla einstaklinga í persónulegum vexti og þroska námsgetu þannig að þeir séu betur undirbúnir til þátttöku á almennum vinnumarkaði eða frekara náms. Nemar Fjölsmiðjunnar eru flestir á aldrinum 16-24 ára en þá eru einnig einhverjir eldri nemar.

Nánari upplýsingar veitir Sturlaugur Sturlaugsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar í síma 8960162. ( www.fjolsmidjan.is.)