Hrossakjötsveislan var vel sótt

Þoleifur, Valdimat og Finnbogi

Mynd með grein: 

Hin árlega hrossakjötsveisla Fjölsmiðjunnar var haldin í gærkvöld. Hollvinir og velunnarar Fjölsmiðjunnar voru mættir tímanlega ásamt starfsmönnum og öðrum vandamönnum. Valdimar, Þorleifur og Finnbogi stóðu yfrir pottunum, hrærðu uppstúfinn og  voru uppfyrir haus að undirbúa allt fyrir komu þeirra 100 gesta sem gerðu matnum prýðilega góð skil. Bros var á hverju andliti og salurinn fylltist hinni sérstöku lykt sem fylgir og margir kunna við. Hallaði heldur á kvenkynið og þykir þessi hefð draga dám af hálfgerðri hrútasamkomu. Konurnar létu þó sitt ekki eftir liggja og nutu niðursaltaða kjötsins. Þar á meðal ein ónefnd kona úr þeirri merku hrossasýslu Skagafirðinum sem ólst upp með hrossum og þótti ekki tiltökumál að snæða eins og einn saltaðan hest. Sá var nefndur Stígur frá Háholti og voru ortar um hann fáeinar bögur af þessu tilefni sem fluttar voru í upphafi veislunnar.  
Þær sem eru áður óbirtar verða opinberaðar hér með leyfi höfundanna: 
 
Frá Háholti var hestur
hnarreistur og Stígur hét. 
Sem saltkjöt er hann bestur
sit ég nú hér og ét. (Guðbjörn hjá Honda-umboðinu) 

Stóðhestur graður var Stígur,
sterkur, já því enginn lýgur
en það er ekki' allt
hann fór allur í salt
og engu nú skítur né mígur.  (V.S.) 
 
Hrossakjöt girnilegt er
í Fjölsmiðju á borðunum er
en flest alir skilja
hvað mannsekjur vilja
og viðbitið íslenskt smér. (Steinunn Gísladóttir) 
 
Í Fjöllunni er oftast fjör,
finnst þar öllum gaman.
Þótt séu í landi sultarkjör
við snæðum hestinn saman.  (V.S.) 

 

Deila á samskiptavef