Nýr forstöðumaður Fjölsmiðjunnar

 
                                                     
 
Þorbjörn Jensson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar hefur látið af störfum eftir 17 ára starf.„Það var afskaplega ánægjulegt og þarft af Rauða krossinum og Félagsmálaráðuneytinu að stofna Fjölsmiðjuna á sínum tíma árið 2001. Um 800 börn og unglingar hafa farið í gegnum starf Fjölsmiðjunnar og um 80 % þeirra hafa skilað sér út í atvinnulífið eða frekara nám. Það hafa margir lagt sitt að mörkum í gegnum árin. Þegar ég var ráðinn þá fékk ég miða sem á stóð hvað Fjölsmiðjan átti að heita og ég ætti að byggja vinnusetur fyrir ungt fólk, þannig byrjaði þetta nú“, segir Þorbjörn sem lætur af störfum vegna aldurs.
Nýr forstöðumaður, Sturlaugur Sturlaugsson hefur verið ráðinn til starfa frá og með 1. september. Sturlaugur er viðskiptafræðingur að mennt og með mikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu og hefur unnið að æskulýðs- og forvarnarmálum hjá Íþróttabandalagi Akraness í áratugi. Hann segist hlakka til að þróa áfram starfið í Fjölsmiðjunni í samvinnu við starfsfólkið, stjórn og hagsmunaaðila. Hann segir starfsfólkið búa yfir mikilli reynslu og þekkingu eftir að hafa unnið með öllu því unga fólki sem notið hefur leiðsagnar og stuðnings í Fjölsmiðjunni í gegnum tíðina. 
 
Á myndinni má sjá Elínu Oddnýju Sigurðardóttur, stjórnarformann Fjölsmiðjunnar bjóða Sturlaug velkominn til starfa.
 

Deila á samskiptavef